vinnvinn

Hvað segir kristalskúla Deloitte okkur um framtíðina á vinnumarkaðnum?

6/10/2020

Samkvæmt nýjustu Human Capital Trends skýrslu Deloitte, sem nýlega kom út í tíunda sinn, og byggir á könnun meðal þúsunda stjórnenda út um allan heim, er gott samspil hins mannlega og tækninnar það sem mun varða leiðina fram á við.

Þó þessi skýrsla komi erlendis frá er ansi margt í henni sem stjórnendur á Íslandi þurfa að byrja að huga að, og helst strax í dag, því framtíðin er á morgun. Hætta er á að við gætum orðið af ýmsum góðum tækifærum í rekstri og verðmætasköpun ef við ætlum bara að skoða þetta einhvern tíma seinna.

Herdís Pála Pálsdóttir – Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri Deloitte.

Trendin tíu

Í skýrslunni eru sett fram 10 trend, sem byrjuð eru að láta á sér kræla eða spáð er fyrir um, og falla níu þeirra undir þrjá flokka.

  1. Tilgangur - þar undir koma trendin Að tilheyra, Velsæld og Kynslóðin eftir kynslóðirnar
  2. Möguleikar – þar undir koma trendin Ofurteymi, Þekkingarstjórnun og Endurmenntun
  3. Sjónarhorn – þar undir koma trendin Launaráðgáta, Stjórnun og Siðfræðin tengd framtíð vinnu

Tíunda trendið stendur sjálfstætt og er það skilaboð til mannauðsfólks um að breikka sjónarhorn sitt og stækka áhrifasvið sitt. Nánar má lesa um trendin hér fyrir neðan en byrjum á að skoða hvað þetta þýðir fyrir okkur á Íslandi.

Trendin og áherslur á Íslandi

Skiptir þetta einhverju máli fyrir okkur á Íslandi og ef svo, hvað af þessum trendum eða hugmyndum ættu stjórnendur á Íslandi helst að horfa til núna?

Ef það er einhver rauður þráður á milli allra þessara trenda þá er hann kannski helst sá að það ættu allir að hrista vel upp í sér, sínum hugmyndum og verklagi núna – til að búa sig undir nýja framtíð starfa, vinnustaða og vinnuafls.

Þó það sé gott að eiga góða fortíð til að horfa til þá munu aðferðir fyrri tíma ekki duga fyrir komandi tíma.

Meirihluti þátttakenda í könnun skýrslunnar segir að a.m.k. helmingur starfsfólks muni þurfa að auka getu sína og bæta við sig nýrri færni á næstu þremur árum.

Hraði breytinga er það mikill að hefðbundin endurmenntun er ekki nægjanleg. Þróun starfsmanna þarf að taka bæði tillit til eðlis starfa og verkefna, en ekki síður getu til að vera stöðugt að endurnýja sig.

Fyrirtæki gætu einnig þurft að endurskoða ýmislegt í ráðningum hjá sér, ráða inn fólk sem hefur möguleika og gæti orðið fært um að leysa tiltekið starf eða verkefni vel, jafnvel þó viðkomandi hafi ekki beint reynslu af sambærilegum viðfangsefnum.

Það að byrja strax að fjárfesta, tíma og peningum, í að efla stjórnendur og starfsfólk með nýrri þekkingu mun gera fyrirtækjum kleift að takast á við framtíðarverkefni og áskoranir – það verður of seint að byrja á því þegar þau verkefni og áskoranir banka upp á.

Nokkur verkefni eða hugmyndir að horfa til fyrir nánustu framtíð

Fram að þessu hefur því mannlega og tækninni verið stillt upp sem miklum andstæðum, og jafnvel þannig að tæknin sé að ræna störfum af fólki. Með því að huga að góðu samspili þessara þátta getum við skapað mun meira virði og búið til enn fleiri störf.

Starfsfólk er einstaklingar sem hafa mikla þörf fyrir að tilheyra en vilja samt ekki vera skilgreindir eftir hóp eða kynslóð, heldur sérkennum hvers og eins. Stjórnendur þurfa því að leggja það á sig að þekkja fólkið sitt.

Vellíðan í vinnu er ekki bara fyrir veimiltítur eða vælukjóa heldur ýtir hún undir frammistöðu og árangur. Fyrirtæki ættu því að byggja inn í störfin og starfsumhverfið þætti sem styðja við vellíðan og hafa vellíðan í forangi, ekki síst til að ná til sín hæfasta fólkinu á vinnumarkaðnum sem getur valið á milli starfa eða verkefna.

Teymi framtíðarinnar innihalda blöndu af mannlegu og vélrænu vinnuafli. Starfsfólk og stjórnendur þurfa því að skilja hvernig vitvélar virka.

Það að halda að sér þekkingu og upplýsingum er merki um að þú sért fastur í gamla tímanum. Því meira sem þú deilir með öðrum því verðmætari ertu. Vaxtarhugarfar er það sem koma skal.

Hröð tækniþróun ýtir undir það að starfsfólk þarf stöðugt að vera að læra nýja hluti og endurnýja sig, sem er besta leið þess til öryggis á tímum breytinga. Þekking hefur verið, og verður áfram, lykilatriði við að skapa samkeppnisforskot.

Fastmótuð og verkmiðuð störf eins og við þekkjum þau í dag eru á undanhaldi. Skipulag teyma og vinnustaða er líka að breytast. Það er kominn tími á nýjar tegundir ráðningarsambanda, að hverfa frá stífum starfslýsingum og fyrirmælum yfir í aukið svigrúm til að leysa störfin eða verkefnin; frá þröngri færni til víðtækrar getu, seiglu og sveigjanleika.

Lesa Deloitte-skýrsluna.

Herdís Pála Pálsdóttir
Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri Deloitte.

áhuga­vert